Dagur 3 Siem Riep

Að venju hittumst við í morgunverði og skoðunarferð var framundan en fyrst skyldi farið á markað. Þar var  var verslað grimmt  en það gæti  verið að eitthvaf af því lenti Góða  hirðinum þegar heim er komið. Ferða mátinn í Cambódi var að okkar skapi þar farið um í svokölluðum Tugk Tugk sem er scooter með kerru og verðlagið var ekki verra $2 sama hvert var farið. Oft reyndu bílstjórarnir að fá okkur til að fara annað en til stóð, "leidííí leidíí jú gó diskóóó..... " jú góó massas mít mæ sister......" onlí tú dollar...." og fleyra í þessum dúr. Alltaf voru þessar ferðir stórkostleg skemmtun og eru sumir í áhöfninni orðnir mjög góðir í að herma eftir þessum bílstjórum og væri athugandi að þeir sýndu þessa færni sína á næstu árshátíð. 

Síðan var farið í skoðunarferð til Angkor Wat þar sem mikið var myndað og nokkrir fóru í fjallaferð á fílsbaki og horfðu á ægifagurt sólsetur við fornar rústir. Að lokinni þessari ferð fengu flugmenn bakþanka og létu sig hafa það að skella sér á markaðinn í smá innkaup fyrir eiginkonur og dætur. Um kvöldið var tekin létt æfing fyrir Indlandsdvöl og snæddur indverskur matur á frábærum veitingastað. Gengið var snemma til náða þar sem erfiður dagur var framundan. 


Dagur 2 Siem Riep frh.

Það var fagnaðarfundur í fallega sundlaugagarðinum, skreyttur Búddastyttum og fögrum gróðri.  Það voru ekki allir laugargestir jafn ánægðir með hvað það er gaman hjá okkur, frönsk frekja sem að lá dottandi á bekk í borubuxum einum fata, hvæsti á okkur og bað okkur um að þegja.  Við létum það nú ekki á okkur fá, bentum henni á nokkrar góðar bækur til aflestrar til þess að öðlast innri ró og yfirvegun og héldum okkar striki.  Snótin hefndi sín með því að púa yfir okkur sígarettureyk og snyrta sína leyndustu líkamsparta vopnuð plokkara.  Aldrei þessu vant varð "the mutual admiration society" orðlaust.  En það stóð nú ekki lengi yfir.  Okkur var boðið til kvöldverðar með farþegunum á glæsilegasta hóteli borgarinnar, þannig að það var kominn tími til að klæða sig upp í okkar fínasta púss.  Við hittumst úti í garði til þess að taka upp kveðju til árshátiðargesta Icelandair, því miður brást tæknin okkur en við hugsuðum til ykkar.  Það var tilkomumikil aðkoma í hótelgarðinn stígurinn að borðhaldinu kyndlum skreyttur, búið að spreyja grasið með flugnaeitri, til þess að gestir gætu snætt utandyra án þess að verða fyrir áras moskítóflugna. Ekki var þó hægt að gera neitt í ofvöxnum leðurblökum á stærð við ketti sem að sveimuðu yfir prúðbúnum gestunum, nokkrir fengu að finna illþyrmilega fyrir líkamsvessum þeirra sem að lentu í hári þeirra eða drykkjum.  Við vorum þó laus við þær þegar að við settumst til borðs.  Maturinn var mjög góður og gaman að blanda geði við farþegana okkar, þeir eru alsælir með okkur og eru með samsæri um að hleypa okkur ekki út í Keflavík.  Eftir matinn buðu A&K farastjórarnir okkur upp á drykk á  elsta og virtasta bar Siem Riep "the Elephant bar". 

Kæri sáli dagur 2, Siem Riep

Vöknuðum í Siem Riep á árshátíðardaginn, sem er eins og Vilborg segir á  hverjum stað  "þetta er  besti  staðurinn". Hótelið er  yndislegt og frábær morgunmatur, eins og flottasta hádegisverðarhlaðborð, frábær núðlusúpa og alls konar góðgæti.  Við náðum sæmilegu netsambandi og náðum að blogga og lesa kærkomnar kveðjur frá vinum og vandamönnum. Nota bene það er best að fá kveðjurnar á gestabókinni. Strákarnir Siggi, Óli og Höddi fengu undanþágu hjá " the anti golf society" og fóru á besta golfvöll sem að þeir hafa spilað á, kannski hafa caddiarnir haft eitthvað með það að gera, ungar dömur frá Cambodiu, flissandi og dáðust að hverju höggi. Berglind, Maggi og Bassi fóru að heimsækja " the floating village", Berglind var skipstjórinn. Þau áttu ógleymanlegan dag, styrktu skóla og mingluðu með innfæddum. Við hin vorum græn af öfund þegar að við sáum myndirnar eftir daginn.  Hinar stelpurnar og Pétur fórum á "the old market", kolaportið á sterum, eins og að Gurrý komst svo skemmtilega að orði. Eftir innkaupaferðina er spurning um hvort að við þurfum ekki að leigja bás í kolaprotinu þegar að við komum heim.  

 


Sidney-Cambodia

Við vorum vakin kl. 3.30 um nóttina.  Allir mættu uppstrílaðir og uppáklæddir samkvæmt ströngustu uniformreglum.  Við vorum keyrð beint út í vél, allt mjög þægilegt hérna "down under".  Farþegarnir okkar frekar syfjulegir og hresstust ekki fyrr en eftir sinn daglega skammt af kampavíni.  Það var 4 tíma flug til Darwin þar sem að við þurftum að "fuela".  Það gekk hratt fyrir sig farþegarnir um borð og Höddi sá til þess að þetta tók bara rúman klukkutíma, hann fær flugvirkjaverðlaun Íslands útnefndur í öllum flokkum. Darwin-Siem Riep var 5 tíma flug og lentum við þar kl.13.30 á staðartíma.  Þessi áhöfn missir aldrei dampinn og fóru stelpurnar í unaðslegt fótanudd á hótelinu, ekki amalegt eftir að hafa staðið langa og stranga vakt.  Gurrý bauð í boð og tónleika með Sálinni. Síðan fórum við á Red Piano, veitingastað sem að Angelina Jolie á hér í borg.  Sumir áhafnameðlima voru eitthvað að misskilja tilgang heimsferðarinnar, töldu sig vera í amazing race og upphófst mikill kappakstur á "tuktuk" leigubílum heimamanna og voru þrír í hverjum bíl.  Blogglesendur eru ekki alveg að ná því hver er með tattúið, það er ekki Berglind. Við í saumaklúbbnum erum alsæl að makar okkar eru að ná svona vel saman, góða skemmtun í kvöld, Angelina biður að heilsa!

 


Dagur í Sydney

Morgunverðurinn tekinn snemma, tékkað á blogginu, kveðjur að heiman ylja okkur um hjartarætur.   Ella er meidd á fæti og ákvað að eyða deginum heima við og láta lækni tékka á sér, sem betur fer er hún óbrotin.  Erna var hjúkrunarkona dagsins. Ella og Erna áttu góðan dag í Sydney fóru á safn og verður listasögutími í Cambodiu. Bassi og Maggi fóru að elda. Við hin tókum strætisvagn á Bondi beach til þess að kynna okkur líf innfæddra.  Siggi fór í klippingu og fræddist um að það væri frekar kalt miðað við árstíma bara 27gráður og þess vegna væru svona fáir á ströndinni. Óli var fyrstur í sjóinn, sannur leiðangursstjóri, varaði okkur við öldunum sem að eru mjög kraftmiklar hérna hinumegin á hnettinum.  Vilborg var starfsmaður á strönd og sá um að bera á bakið á liðinu. Það er ótrúlega margt sem að gleður augað á Bondi Beach!!!! sérstaklega flottir surfarar og er surfing greinilega líkamsrækt sem að er að virka vel miðað við líkama aussie gaurana.Eitt okkar fékk sér tattoo, þið megið geta hver! Óli, Höddi og Siggi hurfu þó fljótlega höldum samt að þeir hafi ekki farið í golf allavega sáum við hvergi köflóttar buxur.  Pétur er náttúrulega sá sem að við getum treyst á og vorum við fimm á ströndinni.  Bassi gleðigjafi og Maggi massi mættu á ströndina til okkar og þá fyrst fékk maður eitthvað að snæða á geðveikum stað við ströndina með útsýni yfir hafið.  Eftir matinn fjárfestum við í áströlskum höttum til þess að gleðja farþegana okkar í nótt!  Leiðir skildu og fóru sumir að versla didgerido og aðrir upp á hótel.  Sydney er frábær borg og verður erfitt að fara héðan. 

 


Samóa-Sidney

Við kvöddum Samóa með tár á hvarmi, hefðum gjarnan viljað vera lengur og ef að Úrval-Útsýn bætir eyjunni við áfangastaði sína eru 12 sæti þegar seld.  Hálftíma eftir flugtak flugum við yfir daglínuna, Siggi taldi niður, hann er snillingur í hátalarann og hefur BBC falast eftir að fá hann til starfa.  Berlind spilaði "Yesterday" a trompetinn og Vilborg stóð hjá með tárvot augu og hélt nótunum.  Enn og aftur trilltust farþegar af fögnuði. Við lentum í Sidney klukkutíma á undan áætlun, fórum í loftið á mánudegi og lentum 1.30 e.h. á þriðjudegi.  Við þurftum að undirbúa cabinuna vegna móttöku fyrir ástralska blaðamenn og ljósmyndara sem að voru að kynna sér starfsemi A&K, við rúlluðum því upp eins og öllu öðru sem að við gerum.  Gurrý og Óli voru tekin í sjónvarpsviðtal og stóðu sig frábærlega, Siggi fékk tár í augun yfir frammistöðu kollega síns og verður Gunnhildur á forsíðu bæklingsins í Ástraíu.

Vinnudagar okkar eru langir og vorum við ekki kominn upp á hótel fyrr en um kvöldmatarleiti.ð  Við hittumst með tölvurnar þvi að það er alltaf mikill spenningur að kíkja á bloggið og athuga með kveðjur frá vinum og vandamönnum.

Maggi matgæðingur fann frábæran veitingastað niður við höfn með útsýni yfir óperuhúsið og þó að danski arkitektinn, Jörn Utzon, sem að teiknaði Óperuna hafi aldrei litið hana augum vorum við Íslendingarnir agndofa.

Það var gott að leggjast á koddann eftir óvenju langan vinnudag.

Daginn eftir var farin hópferð í siglingu og er það Hödda flugvirkja að þakka að við týnum ekki hvort öðru vegna þess að hann hefur ótrúlega góða yfirsýn yfir hópinn og passar vel uppá okkur.

Um kvöldið skildust leiðir, Vilborg ofurreddari var með 2 boðsmiða á tónleikana með Björk og Ella menningarviti stóð fyrir hópferð í óperuna á La Boheme.

Jet settararnir fóru á tónleikana sem að voru haldnir undir berum himni við óperuna, ótrúlega tilkomumiklir en eftirpartýinu var sleppt vegna mikils aðskilnaðarkvíða.

La Boheme stóð undir væntingum þó svo að sumir hafi dottað.

Berlind og hinir strákarnir tóku að sér að smakka kengúrusteikur.  Urðu miklir fagnaðarfundir þegar að hópurinn sameinaðist á ný. 


Páskaeyjar-Samóa

Við tókum á móti farþegunum okkar fjaðurskreyttar og þeir trylltust af ánægju þegar að Berglind í ekta Páskaskeggjadressi, fjaðurpilsi og brjóstahaldara dansaði  aftur eftir vélinni.  Við eigum orðið hvert bein í þeim og einn þeirra vill taka Ellu með sér heim að lokinni ferð og lofar að sjá vel um hana. Flugið var 8tímar og 20mínútur en leið ótrúlega hratt og farþegarnir fóru alsælir frá borði,sérstaklega þeir sem að höfðu verið svo heppnir að fá borð á lounginum sem að Erna og Maggi eru á góðri leið með að breyta í fimm stjörnu veitingastað.

Samóa er ótrúlegur staður, gróðursæl og falleg, þakin grænum gróðri sem að ameríkanarnir plöntuðu í stríðinu til þess að geta falið sig fyrir óvininum.  Hér á Samóa eru húsin bara gólf, þak og súlur, þannig að maður sér inn til fólksins þegar að maður keyrir framhjá. Látnir ættingjar eru grafnir í garðinum og mikið er lagt í grafreitina.  Þorpin eru í keppni sín á milli, þannig að mikill metnaður liggur í því að halda öllu vel við.

Það voru frábærar móttökur á hótelinu og sterkbyggðir eyjaskeggjar fóru létt með að hlaupa upp á þriðju hæð með blýþungar ferðatöskur í hvorri hendi.  Við vorum uppgefin en í góðum gír eftir langan dag þannig að það var stuttur húslestur og roomservice.  

Daginn eftir fóru stelpurnar og Pétur á ströndina, við héldum að okkur yrði bara hent beint á handklæðin, en það var nú öðru nær. Við vorum keyrð upp í fjöll þar sem að við skoðuðum fossa og dáðumst að útsýninu, við keyrðum líka í gegnum mörg þorp þar sem að íbúarnir stilltu sér glaðir upp fyrir myndatöku.

Á sröndinni fengum við lítið opið strandhús til að geyma dótið okkar og kom það sér vel þegar að himingáttirnar opnuðu sig.  Fararstjórarnir okkar grilluðu fyrir okkur og reiddu fram þennan líka dýrindis hádegisverð.  við fórum í sjóinn og snorkluðum.  Sjórinn er ótrúlega tær og heitur, fallegur gróður og fiskar, aðallega bláir, Icelandair liturinn og líka í Kr litunum til mikillar gleði fyrir þá þrjá KR-inga sem að eru í hópnum.  Á leiðinni af ströndinni komum við við hjá bónda sem að býr einn og ræktar kókoshnetur sem að vaxa á jörðinni og eru ekki eins sætar eins og þær sem að vaxa á trjánum.

Okkur var sýnt hvernig kókosmjólkin er kreyst úr kjötinu með þvi vefja því inn í vættar trefjar sem  síðan eru kreystar.   

Aðal gæludýr eyjaskeggja eru svín, þau eru miklu fallegri en þessi týpísku bleiku svín, það mikið fallegri að Gunnhildur varð alveg svínvitlaus, heimtaði að rútan stoppaði og fór út til þess að reyna að klappa einu, þau voru nú ekki alveg til í þessar gælur og upphófst mikill eltingaleikur, þannig að íslendingar eiga nú nýjan heimsmeistara í svínahlaupi.

Óli, Siggi og Höddi fóru í golf við lítinn fönguð okkar hinna í "the mutual admiration society", þannig að stofnuð var neðri deild klúbbsins, "the anti golf society".  Þeir áttu góðan dag á 18 holu velli, en eins og Pétur orðar það svo skemmtilega "betri eru sex gellur á strönd en átján holur á velli".

Kokkarnir okkar þeir Bassi og Maggi voru fjarri góðu gamni þar sem að þeir voru allan daginn í hóteleldhúsinu að undirbúa kræsingar næsta dags.

Gengum snemma til náða enda áttum við langan dag fyrir höndum. 

 


Páska(eggja)eyja.......

Páskaeyjan tók á móti okkur með erótískum dansi fáklæddra eyjaskeggja af báðum kynjum. Berglind og Gunnhildur slógu í gegn á sviðinu og óvíst er hvort að þær klári ferðina vegna tilboða sem að rigna yfir þær. Daginn eftir vöknuðum við við hanagal og fórum við í skoðunaferð um eyjuna landslagið ótrúlega líkt íslensku landslagi. Moai stytturnar eru magnaðar höggnar úr klettunum og látnar ganga niður að sjó, þær sem ná alla leið fá augu, munn, eyru og skraut. Okkur var boðið í lunch á ströndinni með farþegunum okkar og var okkur tekið opnum örmum og fannst þeim mikið upplifelsi að sjá okkur í "fötum". Þar var líka dansshow en dansararnir aðeins meira klæddir til þess að særa ekki blygðunarkennd viðkvæmra Ameríkana, hressustu dömurnar í hópnum laumuðust þó til þess að sýna myndir af berum bossum dansarana sem að þær höfðu tekið á showinu kvöldið áður. Flugmennirnir okkar hristu mjaðmirnar við mikinn fögnuð viðstaddra, ótrúlega flottir hafa greinilega verið að æfa sig í cockpitinu á leiðinni, Gurrý sló alveg í gegn umvafin karldönsurum. Eftir matinn fórum við í sjóinn og lékum okkur eins og börn í háum öldunum. Nokkrir farþegana fóru með okkur í sjóinn og sáum við aðeins meira af sumum þeirra en við vildum! Áhöfnin er orðin svo samrýmd að við þurfum bara tvö herbergi, eitt fyrir strákana og eitt fyrir stelpurnar. Við erum að tíja okkur til og leggjum af stað til Samoaeyja á eftir, það verður langur leggur en við sleppum við millilendingu. Kokkarnir okkar eru búnir að töfra fram frábæran matseðil og reiknum við með að slá ærlega í gegn, þó að sumir farþegana verði eflaust fyrir vonbrigðum með að við tökum ekki á móti þeim á sundfötunum. Sum okkar eru nokkuð rauðleit þrátt fyrir að okkar lífsreynda fyrsta freyja hafi varað fólk við sterkri sólinni. Það er kanski ekki nema von að fólk roðni þegar að sumir nota rakkrem í stað sólarvarnar.

Lima, Perú.

Dagur 3 hófst með hópferð í perúska rammagerð þar sem við tókum út vöruúrvalið.  Ponchoar, húfur og hattar voru mátaðir og við rétt að hita upp þegar flugstjórnarklefinn var farin að tvístíga fyrir utan.  Þeir samt fljótir að átta sig og fengu sér ís og biðu þolinmóðir. 

Hádegisverður var snæddur við sjóinn.  Vilborg afmælisbarn fékk að njóta sín og um kvöldið hittumst við í afmæliskokteil á hótelinu.  Berglind snillingur birtist eins og engill, böðuð ljósum og spilaði afmælissönginn á trompet eins og hún ein getur.  Kvöldverður var snæddur út á sjó, þar sem öldur freyddu allt í kring og tólf rétta máltíð rann ljúft niður.

Dagur 4.  Fórum í skoðunarferð um Lima borg að kokkunum undanskildum en þeir höfðu í nógu að snúast við undirbúning á næsta legg.  Skemmtilegur leiðsögumaður leiddi okkur í allan sannleika um undur, gersemar Lima og sögu Perú.  "Make me famous" sagði hún í hvert sinn sem við tókum mynd af henni.  Skemmtilegur túr um helstu kirkjur, torg og katakompur í Lima borg.  Rólegt kvöld framundan þar sem morgundagurinn er skipulagður.  Vilborg þakkar fyrir góðar afmæliskveðjur og áhöfnin öll sömuleiðis fyrir góðar kveðjur. 

Kærar kveðjur heim í snjóinn og endilega kvittið fyrir heimsóknina og sendið okkur línu.Smile

 


TOPPDAGUR....miami-lima

 

 

......já algjör toppdagur að baki!  Ferðin hófst á flugi með farþegana okkar frá Miami til Lima í Perú.  ALLT gekk upp.  Þrátt fyrir mikla og langa ókyrrð, var VIP þjónustunni rúllað upp.  Flugleiðin niðureftir hnettinum til suður Ameríku var þó ekki alveg leiðin greið.............., gefum cockpittinu orðið......; 

...."Grámygluleg kólguskýin hrönnuðust upp fyrir framan gluggann ,, stálbakkinn reis vel yfir getu vélar, ekkert mál og eftir svig á milli þrumuskýja á tók dúndrandi blíða við í lofthelgi Perú. Allt í besta, farþegarnir okkar yfir sig ánægðir með elskurnar okkar og auðvitað strákana afturí, súper dagur!!!"..... 

Samvinnan í áhöfninni er svo gífurleg að strákarnir ákváðu að taka sveig fram hjá Equador til þess að gefa freyjunum nógu langan tíma til þess að klára þjónustuna sem að hafði tafist vegna smá hristings í byrjun flugs.  ALLT gekk upp og farþegarnir okkar gengu frá borði brosandi hringinn og strax farnir að hlakka til að koma aftur um borð.  Við kláruðum að ganga frá vélinni með dyggri aðstoð starfsfólks flugvallarins.  Við lentum í smá ævintýri við að fara í gegnum tollinn, það átti að taka tölvurnar af öllum nema flugmönnum og flugvirkja en okkur tókst að sannfæra tollarana um að öryggi vélarinnnar væri undir því komið að allir fengju að fara með tölvurnar inn í landið.  En okkur tókst ekki að sannfæra embættismennina um að það væri lífsnauðsynlegt fyrir áhöfinina að taka dönsku gömlu magamikstúruna í land og endaði hún í holræsinu á vellinum........ 

Knúskveðjur á allt fólkið okkar.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Nine World Wonders. 13 Janúar til 6 Febrúar.

Höfundur

Áhöfn FI-1450
Áhöfn FI-1450
Áhöfn FI-1450 segir frá ferðalagi um heiminn.
Maí 2025
S M Þ M F F L
        1 2 3
4 5 6 7 8 9 10
11 12 13 14 15 16 17
18 19 20 21 22 23 24
25 26 27 28 29 30 31

Nýjustu myndir

  • ...o_cairo_224
  • ...o_cairo_202
  • Z...z...zzz..zzzzzzzzzzzzzz
  • sjáðu sæta rassinn minn.....
  • ...o_cairo_168

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (12.5.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband